Fótbolti

Skór Ólafs Karls komnir upp í hillu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Karl Finsen í leik með Stjörnunni sumarið 2022.
Ólafur Karl Finsen í leik með Stjörnunni sumarið 2022. Vísir/Hulda Margrét

Ólafur Karl Finsen hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna en hann greindi frá þessu á samfélagsmiðlum í dag.

Ólafur Karl er uppalinn hjá Stjörnunni í Garðabæ en lék með Fylki í Bestu deildinni í sumar. Þá hefur hann einnig leikið með Val, FH og Selfossi hér á landi og með AZ Alkmaar í Hollandi og Sandnes Ulf í Noregi.

Ólafur Karl á að baki tvo A-landsleiki og þrjátíu leiki með yngri landsliðum Íslands. Þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti árið 2014 var Ólafur einn af lykilmönnum liðsins og skoraði bæði mörkin í úrslitaleik tímabilsins gegn FH.

„Ég lagði skóna á „hilluna“ með kampavíni og kavíar í kryddsíldinni minni. Margir skilja ekki og krefjast svara. Ástæðan mín er einföld. Mér finnst mínum tilgangi sem spilandi leikmanni á hæsta stigi á Íslandi náð. Mér finnst ég geta gefið betur af mér í öðruvísi hlutverkum og á fleiri stöðum og þjónað mínum tilgangi þannig betur,“ skrifar Ólafur Karl á Instagram.

Í myndbandi á heimasíðu knattspyrnudeildar Stjörnunnar er Ólafi þakkað fyrir sitt framlag til félagsins og ferilinn rifjaður upp. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×