Sport

Íþróttastjarna fannst látin í bíl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Kiplagat sést hér keppa fyrir Úganda á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.
Benjamin Kiplagat sést hér keppa fyrir Úganda á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Getty/Paul Gilham

Íþróttaheimurinn syrgir nú millivegahlauparann Benjamin Kiplagat sem lést á Gamlársdag aðeins 34 ára gamall.

Kiplagat var myrtur en hann fannst látinn í bíl í útjaðri Eldoret borgar sem er sú borg í Kenía sem státar af stærstu æfingamiðstöð þjóðarinnar.

Uganda Daily Monitor sagði frá því að Kiplagat hafi verið stunginn til bana en hann er frá Úganda. Kiplagat fannst í bílnum með djúpt sár í hálsinum.

Rannsókn fór strax af stað og leituðu lögreglumenn að vísbendingum á morðstaðnum. Þeir komust yfir upptökur úr öryggismyndavél á morðstaðnum og hafa nú handtekið tvo menn í tengslum við morðið.

„Frjálsíþróttaheimurinn er í áfalli og mjög dapur yfir fréttum af dauða Benjamin Kiplagat. Okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans, liðsfélaga og allra sem þekktu hann,“ sagði í færslu á samfélagsmiðlum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Kiplagat átti átján ára feril þar sem hann vann meðal annars silfur á HM unglinga 2008 og brons á afríska meistaramótinu 2012. Í bæði skiptin í 3000 metra hindrunarhlaupi sem var hans aðalgrein. Hann komst síðan í undanúrslit á Ólympíuleikunum í London 2012 í sömu grein og tók líka þátt í leikunum í Ríó árið 2016.

Kiplagat náði sínum besta tíma í 3000 metra hindrunarhlaupi þegar hann hljóp á 8:03.81 mínútum í Lausanne árið 2010. Síðasta stórmót hans var HM í Dóha í Katar árið 2019 þar sem hann endaði í átjánda sæti.

Morðið á Kiplagat kemur aðeins rúmu einu ári eftir að maraþonkonan Agnes Tirop var stungin til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×