Onana er í 27 manna hópi Kamerún sem tekur þátt í Afríkumótinu sem hefst 13. janúar og lýkur 11. febrúar. Mótið fer fram á Fílabeinsströndinni.
Onana hefur ekki spilað með Kamerún síðan á HM í fyrra þegar hann hætti í landsliðinu eftir deilur við Samuel Eto'o, forseta kamerúnska knattspyrnusambandsins, og landsliðsþjálfarann Rigobert Song.
Ef Onana ákveður að spila á Afríkumótinu missir hann af allavega fjórum leikjum United í ensku úrvalsdeildinni og gæti jafnframt misst af tveimur bikarleikjum.
Tyrkinn Altay Bayindir mun að öllum líkindum verja mark United í fjarveru Onanas á meðan Afríkumótinu stendur.