Fótbolti

Man. City á fjóra af ellefu bestu í heimi

Sindri Sverrisson skrifar
Jude Bellingham, Erling Haaland og Kylian Mbappé eru þrír bestu leikmenn heims árið 2023, samkvæmt könnun The Guardian á meðal valinna sérfræðinga.
Jude Bellingham, Erling Haaland og Kylian Mbappé eru þrír bestu leikmenn heims árið 2023, samkvæmt könnun The Guardian á meðal valinna sérfræðinga. Samsett/Getty

The Guardian fékk 218 sérfræðinga, þar á meðal þrjá íslenska, til að taka þátt í að velja hundrað bestu knattspyrnukarla heims í ár. Norðmaður, Englendingur og Frakki sitja í efstu þremur sætunum.

Manchester City á fjóra af ellefu bestu leikmönnum ársins, eftir að hafa unnið þrennuna eftirsóttu með því að verða Evrópumeistari, Englandsmeistari og enskur bikarmeistari. Efstur á listanum er Erling Haaland en þessi 23 ára Norðmaður átti fullkomna fyrstu leiktíð með City og hann hefur skorað 71 mark á fyrstu 18 mánuðum sínum með liðinu. Alls settu 146 sérfræðingar hann í efsta sæti og 40 til viðbótar í 2. sæti.

Þetta er í tólfta sinn sem að The Guardian stendur fyrir kjörinu en á meðal þeirra sem kusu í ár eru Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands, Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar og fyrrverandi ritstjóri Fótbolta.net, og Víðir Sigurðsson, umsjónarmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins og mbl.is.

Hinn tvítugi Jude Bellingham, sem farið hefur á kostum með Real Madrid og er markahæstur í spænsku 1. deildinni, er í 2. sæti listans eftir að hafa verið í 14. sæti í fyrra.

Hægt er að skoða hundrað efstu með því að smella hér, en þessir tíu urðu efstir:

  1. Erling Haaland, Man. City
  2. Jude Bellingham, Real Madrid
  3. Kylian Mbappé, PSG
  4. Harry Kane, Bayern München
  5. Rodri, Man. City
  6. Vinícius Junior, Real Madrid
  7. Mohamed Salah, Liverpool
  8. Kevin De Bruyne, Man. City
  9. Victor Osimhen, Napoli
  10. Lionel Messi, Inter Miami



Fleiri fréttir

Sjá meira


×