Fótbolti

Willum lagði upp en Kristian og fé­lagar úr leik eftir tap gegn D-deildarliði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristian Hlynsson og félagar í Ajax eru úr leik í hollenska bikarnum eftir niðurlegjandi tap í kvöld.
Kristian Hlynsson og félagar í Ajax eru úr leik í hollenska bikarnum eftir niðurlegjandi tap í kvöld. Vísir/GEtty

Willum Þór Willumsson og félagar hans í Go Ahead Eagles eru komnir í 16-liða úrslit hollensku bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir öruggan 7-1 sigur gegn C-deildarliði De Treffers í kvöld. Kristian Hlynsson og félagar eru hins vegar úr leik eftir 3-2 tap gegn D-deildarliði USV Hercules.

Willum lagði upp þriðja mark Go Ahead Eagles á 26. mínútu fyrir Oliver Edvardsen, en staðan var 4-0 í hálfleik.

Gestirnir klóruðu í bakkan snemma í síðari hálfleik, en heimamenn í Go Ahed Eagles bættu þremur mörkum við í kjölfarið og unnu að lokum afar öruggan 7-1 sigur. Liðið er þar með komið í 16-liða úrslit hollenska bikarsins, en De Treffers er úr leik.

Þá var annar Íslendingur í eldlínunni í hollenska bikarnum í kvöld þegar Kristian Hlynsson og félagar hans í Ajax heimsóttu D-deildarlið USV Hercules.

Heimamenn í Hercules komust í 1-0 með marki frá Tim Pieters snemma leiks áður en hann tvöfaldaði forystuna með sínu öðru marki þegar um 25 mínútur voru til leiksloka.

Brian Brobbey og Chuba Akpom sáu hins vegar til þess að staðan var jöfn þegar komið var inn í uppbótartímann með mörkum á 83. og 89. mínútu. Mats Grotenbreg gerði þó út um endurkomu Ajax með marki á þriðju mínútu uppbótartíma og þar við sat.

D-deildarlið Hercules er þar með komið í 16-liða úrslit á kostnað Ajax sem situr eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×