Náðst hefur samstaða um breiðfylkingu félaga með um 115 þúsund félagsmenn að baki sér af 130 þúsund í ASÍ. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir félögin leggja fram sameiginlegar kröfur og stefnu í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.

„Við ætlum einmitt að hitta samtökin í fyrramálið. Það er hér að teiknast upp söguleg samstaða 93 prósenta Alþýðusambandsins. Við munum mæta þarna Efling, VR, Landsamband íslenskra verslunarmanna, SGS félögin og Samiðn. Þannig að þetta verður vonandi árangursríkt fyrsta samtal,“ segir Sólveig Anna.
Þetta væri miklu stærra samflot en komið hefði að lífskjarasamningunum árið 2019.
„Helsta markmiðið er að ná niður vöxtum og verðbólgu. Að gera hófsama samninga byggða á módeli lífskjarasamningsins og fá svo stjórnvöld og allt hið opinbera að borðinu svo við getum lokið þessu hratt og örugglega,“ segir formaður Eflingar sem talar fyrir hönd alls hópsins.

Núgildandi skammtímasamningar renna út 31. janúar og er stefnt að því að nýir þriggja ára samningar með krónutöluhækkunum taki við af honum. Ein megin forsendan væri að stjórnvöld öxluðu þá miku ábyrgð sem þau bæru á lífsskilyrðum fólksins í landinu.
„Það þarf að taka verulega til í tilfærslukerfunum. Þá erum við að tala um barnabætur, húsnæðisbætur og vaxtabætur. Svo þurfum við að ganga frá þessum samningi með þeim hætti að Seðlabankinn fari í að lækka vexti hratt og örugglega,“ segir Sólveig Anna.
Seðlabankinn hefur hvatt til hóflegra kjarasamninga til að ná niður verðbólgunni en fyrsti vaxtaákvörðnunardagur hans á nýju ári er um viku eftir að núgildandi samningar renna út. Sólveig Anna segir bankann þess vegna þurfa að koma að borðinu og axla sína ábyrgð eins og verslunin og aðrir.
„Við sjáum fyrir okkur að inn í þennan samning verði skrifuð mjög sterk forsenduákvæði. Sem einmitt tryggi að enginn geti skorast undan ábyrgð í þessu stóra máli. En þetta á auðvitað allt eftirað koma betur í ljós vonandi mjög fljótlega.“
Þessi breiðfylking sem yrði leiðandi í komandi kjarasamningum í landinu geti væntanlega ásamt fulltrúum Samtaka atvinnulífsins fundað með stjórnvöldum fljótlega upp úr áramótum. Þarna kæmu saman hópar með mjög ólíkt launastig og ættu ólíkra hagsmuna að gæta.
„En ætla sér, ef allt gengur eftir, að sameinast í þessu stóra verkefni. Og það er sögulegt,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.