Fótbolti

Ekki einn heldur tveir Mbappé inn á vellinum hjá PSG í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé og yngri bróðir hans Ethan Mbappé eftir leik Paris Saint-Germain og Metz í frönsku deildinni í gær.
Kylian Mbappé og yngri bróðir hans Ethan Mbappé eftir leik Paris Saint-Germain og Metz í frönsku deildinni í gær. Getty/Jean Catuffe

Kylian Mbappé og fjölskylda upplifðu stóra stund í gær þegar Paris Saint Germain vann 3-1 sigur á Metz á Parc des Princes í frönsku deildinni.

Það var ekki nóg með það að Mbappé skoraði tvívegis í leiknum og átti að auki afmæli í gær. Hann fékk nefnilega líka flotta afmælisgjöf undir lok leiksins.

Yngri bróðir Kylian heitir Ethan og er aðeins sextán ára gamall. Hann fékk að koma inn í gær í uppbótatíma leiksins á móti Metz og spilaði þar með sinn fyrsta aðalliðsleik með PSG.

Ethan er átta árum yngri en Kylian en hann er örvfættur og teknískur miðjumaður.

Foreldrar strákanna voru að sjálfsögðu meðal áhorfenda á leiknum í gær. Stór stund fyrir alla í Mbappé fjölskyldunni.

Ethan heldur upp á sautján ára afmælið sitt 29. desember næstkomandi en hann byrjaði hjá sama liði og Mbappé sem er AS Bondy.

Þessi tvö mörk frá Kylian Mbappé eldri þýða einnig að hann er kominn með tíu marka forskot á listanum yfir markahæstu leikmenn í frönsku deildinni. Mbappé hefur skorað átján mörk í aðeins sextán leikjum. Næsti maður er aðeins með átta mörk og nægði því ekki að tvöfalda markaskor sitt ef hann ætlaði að ná Mbappé.

PSG er líka á toppnum með fimm stiga forskot á næsta lið sem er Nice. Liðið hefur náð í fjörutíu stig út úr fyrstu sautján leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×