Fótbolti

AZ Alkmaar sækir ungan Gróttumann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tómas Johannessen er mættur til AZ Alkmaar.
Tómas Johannessen er mættur til AZ Alkmaar. AZ Alkmaar

Hinn 16 ára gamli Tómas Johannessen er genginn til liðs við hollenska félagið AZ Alkmaar frá Gróttu.

Tómas gerir þriggja ára samning við hollenska félagið og kemur fram á heimasíðu liðsins að hann muni fyrst um sinn leika með U18 ára liði félagsins. 

Þrátt fyrir ungan aldur lék Tómas lykilhlutverk í meistaraflokksliði Gróttu í Lengjudeildinni í sumar þar sem hann skoraði fimm mörk í 18 deildarleikjum fyrir liðið.

„Tómas er framsækinn, teknískur og skapandi miðjumaður. Með þessa eiginleika að vopni getur hann lagt sitt að mörkum fyrir AZ í framtíðinni,“ segir í tilkynningu AZ á heimasíðu félagsins.

„Ég er spenntur fyrir þessu næsta skrefi í mínum ferli. AZ er mjög góður klúbbur sem hentar mínum leikstíl. Ég var á reynslu hjá þeim í nóvember og fékk geggjaðar móttökur frá öllum í klúbbnum,“ segir Tómas sjálfur um félagsskiptin. 

„Ég er búin að eiga frábær ár hjá Gróttu frá því ég var fjögurra ára og síðustu tvö ár með meistaraflokknum hafa reynst mér mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×