Enski boltinn

Lewis Hall gjald­gengur gegn Chelsea

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lewis Hall, vinstri bakvörður Newcastle.
Lewis Hall, vinstri bakvörður Newcastle.

Lewis Hall, lánsmaður í liði Newcastle frá Chelsea, má spila með Newcastle þegar liðin mætast í átta liða úrslitum Carabao bikarsins. 

Leikurinn fer fram næsta þriðjudagskvöld og flestir töldu að Lewis Hall myndi ekki spila leikinn, svipað og Martin Dubravka spilaði ekki úrslitaleikinn í marki Newcastle gegn Manchester United á síðasta tímabili heldur Loris Karius. 

En ólíkt Manchester United hefur Chelsea gefið Newcastle leyfi til þess að nota lánsmanninn sinn. Lewis er 19 ára gamall varnarmaður og hefur nýtt tækifæri sín vel á þessu tímabili. Newcastle hefur verið að glíma við mikil meiðslavandræði og hann því komið oftar við sögu en flestir hefðu búist við. 

Hann hefur komið inn á sem varamaður í síðustu tveimur deildarleikjum Newcastle gegn Fulham og Tottenham. Þar áður hefur hann spilað stóra leiki í þriðju og fjórðu umferð Carabao bikarsins gegn Manchester liðunum báðum. 

Lewis Hall kemur upp úr akademíu Chelsea og skrifaði undir átta ára samning við félagið fyrr í sumar. Ákvörðun Chelsea gæti hins vegar bent til þess að leikmaðurinn sé ekki stór hluti af framtíðaráformum þeirra. 

Auk þess er leikmannahópur félagsins gríðarstór og Lewis gæti orðið hluti af niðurskurði næsta sumar. Newcastle er með forkaupsrétt tryggðan þegar lánstíma Lewis lýkur eftir tímabilið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×