Enski boltinn

Mourinho: Man. Utd enn með leik­menn sem ég varaði við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho var rekinn eftir tap á móti Liverpool fyrir fimm árum síðan.
José Mourinho var rekinn eftir tap á móti Liverpool fyrir fimm árum síðan. Getty/Silvia Lore

José Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hann hafi ekki getað náð árangri með hluta þeirra leikmanna og starfsmanna sem starfa enn hjá félaginu í dag.

Mourinho stýrði United frá 2016 til 2018 og vann bæði Evrópudeildina og enska deildabikarinn á fyrsta tímabili sínu auk þess að liðið endaði í öðru sæti í deildinni.

United lét Mourinho fara í desember 2018 og hann hefur verið stjóri Roma frá 2021-22 tímabilinu.

„Það er enn fólk hjá þessu félagi og þegar ég segi fólk, þá er ekki bara að tala um leikmenn. Ég talaði um þetta fólk eftir aðeins tvo mánuði. Ég sagði þeim að með þetta fólk þá næði félagið aldrei árangri. Þau eru þarna ennþá,“ sagði José Mourinho í hlaðvarpsþætti John Obi Mikel sem heitir Obi One. ESPN segir frá.

„Þegar ég var hjá Man. United þá tók ég leikmann af velli í hálfleik og umboðsmaðurinn hans sakaði mig um einelti. Ég varð að komast annað. Ég hlæ í dag þegar ég hugsa um þessa tíma en þetta eru allt aðrir tímar en í dag,“ sagði Mourinho.

Manchester United hefur ekki unnið enska meistaratitilinn í áratug en vann hann þrettán sinnum frá 1993 til 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×