Enski boltinn

Kveður skjáinn eftir ára­langt starf

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ian Wright hefur verið einn þekktasti sérfræðingurinn í umræðu um enska boltann síðustu árin.
Ian Wright hefur verið einn þekktasti sérfræðingurinn í umræðu um enska boltann síðustu árin. Vísir/Getty

Ian Wright fyrrum framherji Arsenal og enska landsliðsins hefur verið sérfræðingur í þætti BBC um enska boltann síðan árið 2002. Hann kveður hins vegar skjáinn í vor að tímabili loknu.

Wright kom fyrst fram í Match of the day árið 1997 þegar hann var ennþá leikmaður en fékk fast starf sem sérfræðingur árið 2002. Hann hætti störfum árið 2008 en sneri aftur árið 2015 og hefur verið við störf síðan þá. 

Þátturinn er einn sá langlífasti í bresku sjónvarpi en þar er fjallað um enska boltann og farið yfir atvik hverrar umferðar á laugardagskvöldum.

Wright segir að ákvörðunin um að hætta hafi verið í bígerð í nokkurn tíma og hafi verið auðveldari eftir að hann fagnaði sextugsafmæli sínu í síðasta mánuði.

„Það er kominn tími til að gera eitthvað annað á laugardögum. Eftir að hafa fyrst komið fram í þættinum árið 1997 og eftir svo ótrúlega mörg eftirminnileg ár þá er kominn tími til að ég hætti í Match of the day,“ sagði Wright þegar hann greindi frá ákvörðun sinni.

Wright hefur meðal annars komið fram ásamt syni sínum Shaun Wright-Philips en þeir voru þá fyrstu feðgarnir til að koma fram í þættinum saman.

„Allir sem þekkja mína sögu vita hvers mikið þessi þáttur hefur þýtt fyrir mig síðan ég var ungur strákur. Match of the day er minn heilagi kaleikur. Í fyrsta þættinum þá sagði ég við stjórnandann Des Lynam að þetta væri mitt Graceland.“

Wright lék lengst af á sínum ferli með Arsenal og skoraði alls 185 mörk fyrir félagið. Hann vann ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn, deildabikarinn og evrópukeppni bikarhafa með félaginu. Þá lék hann 33 landsleiki fyrir England og skoraði í þeim níu mörk.

Eftir að ferlinum lauk hefur hann orðið einn þekktasti sérfræðingurinn í umræðu um enska boltann en hann hefur fjallað bæði um karla- og kvennadeildirnar í Englandi. Þá hefur hann einnig komið fram í þáttum BBC þar sem hann greindi frá ofbeldisfullri æsku sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×