Fótbolti

Herjuðu á heimili Kjartans og brutu rúður

Aron Guðmundsson skrifar
Kjartan fagnar markinu fræga gegn Bröndby.
Kjartan fagnar markinu fræga gegn Bröndby. Getty

Kjartan Henry Finn­boga­son hefur lagt knatt­spyrnu­skóna á hilluna eftir afar far­sælan feril, bæði sem at­vinnu- og lands­liðs­maður. Það hefur á ýmsu gengið á leik­manna­ferli Kjartans og í sam­tali við Val Pál Ei­ríks­son, sagði hann frá ó­skemmti­legri at­burða­rás sem tók við eftir að hann hafði eyði­lagt titil­vonir Brönd­by sem leik­maður AC Hor­sens.

Það er kannski eitt at­vik, þegar að þú skorar þessi mörk á móti Brönd­by og gerir út um titil­vonir þeirra á sínum tíma. Það dró dilk á eftir sér.

„Já og gerir það enn þann dag í dag þó það sé ekkert eitt­hvað sem er að stressa mig á. Kaup­manna­höfn er náttúru­lega skipt í tvennt á milli þessara tveggja liða, FC Kaup­manna­hafnar og Brönd­by. Ég var að spila minn síðasta leik fyrir AC Hor­sens og fékk þau skila­boð frá þjálfaranum að ég myndi koma inn sem vara­maður í þessum til­tekna leik gegn Brönd­by. Þetta var síðasti heima­leikurinn, al­gjör­lega pakkaður völlur og Brönd­by gat tryggt sér titilinn.“

Kjartan kom inn á sem vara­maður undir lok leiks. Staðan var þá 2-0 fyrir Brönd­by og út­litið bjart fyrir titil­vonir þeirra.

Kjartan gerði sér hins vegar lítið fyrir og skoraði tvö mörk fyrir AC Hor­sens fyrir leiks­lok og jafnaði leikinn í stöðuna 2-2 sem urðu loka­tölur leiksins.

„Þeir töpuðu titlinum. Það er eitt­hvað móment sem ég mun aldrei gleyma.“

Svefnlausar nætur

Stuðnings­menn Brönd­by voru allt annað en sáttir með þessa niður­stöðu. Kjartan Henry og fjöl­skyldan hans fengu að finna fyrir reiði stuðnings­mannanna.

„Það voru þarna menn með húð­flúr á and­litinu bankandi upp á heima hjá mér og brjótandi rúður. Það var ekkert sér­lega skemmti­legt en geggjuð minning eftir á. Það er alltaf gaman að eyði­leggja partýið.“

Ó­prúttnir aðilar herjuðu einnig á heimili fjöl­skyldunnar eftir leik á meðan að Kjartan Henry var enn á leik­stað.

„Konan mín var heima með krakkana og við vorum einnig með au-pair hjá okkur á þessum tíma. Við leik­mennirnir máttum ekki fara út af leik­vanginum þar sem að stuðnings­menn voru að reyna að brjótast inn.

Við vorum því læstir inni og ég fæ sím­tal frá konunni minni þar sem hún tjáði mér að það væru menn fyrir utan heimilið okkar með læti og bankandi á hurðina. Ég náttúru­lega tjúllaðist við þetta, laumaði mér út af leik­vanginum og brunaði heim.“

Þá voru um­ræddir menn á bak og burt og segir Kjartan Henry að tekið hafi við svefn­lausar nætur.

„Svo fékk maður alls konar morð­hótanir en á sama tíma fékk ég blóm og ástar­kveðjur frá stuðnings­mönnum FC Kaup­manna­hafnar. Það eru því tvær hliðar á þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×