Fótbolti

Gagn­rýnir Mbappé fyrir leti og eigin­girni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kylian Mbappé hefur skorað átján mörk fyrir Paris Saint-Germain á tímabilinu.
Kylian Mbappé hefur skorað átján mörk fyrir Paris Saint-Germain á tímabilinu. getty/Ralf Ibing

Fyrrverandi heims- og Evrópumeistarinn Christophe Duggary hefur gagnrýnt ofurstjörnuna Kylian Mbappé fyrir leti og eigingirni.

Mbappé og félagar í Paris Saint-Germain komust naumlega áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 1-1 jafntefli við Borussia Dortmund í fyrradag.

Duggary var ekki hrifinn af frammistöðu Mbappés í leiknum gegn Dortmund og fannst hann ekki leggja nógu hart að sér.

„Ég kenni honum um slæmt viðhorf en skil að tölfræði er honum mikilvæg,“ sagði Duggary á RMC Sport.

„Hann vissi að þetta var leikur þar sem mikið var til ætlast af honum. Hann varð að leiða PSG-liðið en þegar ég heyri orðið leiðtogi hugsa ég um einhvern sem sýnir gott fordæmi. Hæfileikar hans eru óumdeildir en hann sýnir ekki gott fordæmi. Hann hefur engan áhuga á að verjast.“

Að mati Duggarys hugsar Mbappé of mikið um sjálfan sig en ekki nóg um heildina.

„Ég sá varfærinn Mbappé. Hann talaði aðeins við samherja sína í lok leiks en hefði átt að gera það fyrr. Ég sá hann ekki pressa miðverði Dortmund. Ég varð fyrir miklum, miklum vonbrigðum með hegðun hans,“ sagði Duggary.

Þrátt fyrir gagnrýni Duggarys hefur Mbappé sannarlega staðið fyrir sínu á tímabilinu og skorað átján mörk í tuttugu leikjum í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×