Velska fótboltaliðið Pontypridd United er síbrotafélag og hefur fengið hörðustu refsingu sem um getur í fótboltanum.
Félagið hefur nefnilega hvað eftir annað brotið reglur velska knattspyrnusambandsins.
Welsh club Pontypridd United could face a point deduction pic.twitter.com/qSnWmIU99m
— Sky Sports News (@SkySportsNews) December 12, 2023
Velska félagið telst alls hafa brotið átján sinnum af sér þegar kemur að nota ólöglega leikmann og brjóta samninga leikmanna.
Sjálfstæð nefnd fór yfir málið og komst að því að félagið hafi í raun verið brotlegt í öll átján skiptin.
Pontypridd United hefur neitað öllum ásökunum en hefur nú verið refsað. Refsingin er sú að 141 stig verður tekið af liðinu.
Það hafa þegar verið tekin sex stig af félaginu vegna brota en hin 135 stigin eru skilorðsbundin. Félagið má ekki brjóta frekar af sér til loka 2024-25 tímabilsins en annars verða öll þessi stig dregin af félaginu.
Þetta er harðasta refsing af þessari gerð í sögunni en 30 stig hafa verið tekin í gegnum tíðina af liðum Luton Town, AC Milan, Fiorentina og Lazio.
Pontypridd United mátti ekki við að missa þessi sex stig en eftir að þau fóru þá situr liðið í botnsæti velsku deildarinnar.