United tapaði 1-0 fyrir Bayern München þar sem Kingsley Coman skoraði sigurmarkið eftir 70 mínútna leik. Coman komst í algjört dauðafæri eftir samspil þýsku meistaranna en markvörðurinn André Onana hefur þó verið gagnrýndur fyrir að koma ekki út á móti honum til að loka markinu betur.
United endaði því með aðeins fjögur stig í riðlinum sem er versta útkoma liðsins í sögu Meistaradeildar Evrópu.
Á sama tíma tryggði FCK sér 2. sæti A-riðilsins með því að vinna 1-0 heimasigur gegn Galatasaray á Parken. Lukas Lerager skoraði sigurmarkið eftir laglegt samspil, á 58. mínútu, og stuðningsmenn FCK eru sjálfsagt enn að fagna.
Í C-riðli tryggði Napoli sér sæti í 16-liða úrslitum með 2-0 sigri gegn portúgalska liðinu Braga sem þurfti tveggja marka sigur til að komast upp fyrir Napoli. Í sama riðli vann svo Real Madrid 3-2 útisigur gegn Union Berlín og endaði því með fullt hús stiga.
Mörkin úr leikjunum má sjá hér að neðan, sem og mörkin úr úr 3-1 útsisigri Benfica gegn Salzburg í D-riðli en í sama riðli gerðu Inter og Real Sociedad markalaust jafntefli, sem dugði spænska liðinu til að vinna riðilinn en Inter endaði í 2. sæti.