Enski boltinn

Segir að United gæti þurft að bíða jafn lengi eftir titli og Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Manchester United niðurlútir eftir tapið fyrir Bournemouth um helgina.
Leikmenn Manchester United niðurlútir eftir tapið fyrir Bournemouth um helgina. getty/Clive Brunskill

Manchester United gæti þurft að bíða jafn lengi eftir Englandsmeistaratitlinum og Liverpool gerði á sínum tíma. Þetta segir sparkspekingurinn Ally McCoist.

United varð Englandsmeistari 2013 á síðasta tímabilinu undir stjórn Sir Alex Ferguson en hefur ekki verið nálægt að vinna titilinn síðan þá. McCoist óttast að stuðningsmenn United gæti þurft að bíða enn lengur eftir því að liðið vinni Englandsmeistaratitilinn á ný.

„Með United, hvað gerirðu núna? Rekurðu Erik ten Hag? Ten Hag, José Mourinho, allir þessir frábæru stjórar með flotta ferilskrá hafa ekki virkað svo það er eitthvað meira en það. Þetta er kerfisbundið í gegnum félagið,“ sagði McCoist sem er ekki viss um að mikið breytist ef Sir Jim Ratcliffe eignast fjórðungshlut í United eins og flest virðist benda til.

„Ég veit að það verða breytingar í æðstu stöðum en Liverpool beið í þrjátíu ár eftir titli. Ég er ekki að segja að það gerist en það kæmi ekki á óvart. Þetta er skrítin staða og það þarf mikið til að laga United sem er ekki það sem stuðningsmennirnir vilja heyra.“

United hefur tapað ellefu leikjum í öllum keppnum á tímabilinu, þar af sjö í ensku úrvalsdeildinni. United er á botni síns riðils í Meistaradeild Evrópu og mikið þarf að gerast til að liðið komist í sextán liða úrslit keppninnar.

United tekur á móti Bayern München í kvöld og þarf að vinna þýsku meistarana og treysta á að FC Kaupmannahöfn og Galatasaray geri jafntefli á sama tíma til að komast upp úr riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×