Enski boltinn

Segir að and­rúms­loftið sé ekki eitrað í klefa Man. United eins og stundum áður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott McTominay og félagar í Manchester United töpuðu illa á moti Bournemouth á Old Trafford um helgina.
Scott McTominay og félagar í Manchester United töpuðu illa á moti Bournemouth á Old Trafford um helgina. Getty/Clive Brunskill

Scott McTominay segir að hann og leikmenn Manchester United standi þétt að baki knattspyrnustjóra sínum Erik ten Hag en fram undan hjá liðinu er leikur upp og líf og dauða í Meistaradeildinni. United mætir Bayern München annað kvöld.

Til að United menn komist áfram í sextán liða úrslitin þá þarf liðið að vinna Bayern á Old Trafford og á sama tíma þurfa FC Kaupmannahöfn og Galatasaray að gera jafntefli í hinum leik riðilsins.

Fá lið hafa verið gagnrýnd jafnmikið og lið United á þessu tímabili. Liðið byrjaði helgina aðeins þremur stigum á eftir Manchester City en spilamennskan og slök frammistaða í Meistaradeildinni hefur kallað á hörð og mjög gagnrýnin viðbrögð í fjölmiðlum.

McTominay segir að andrúmsloftið í búningsklefanum hafi stundum verið eitrað undir stjórn fyrri knattspyrnustjóra en að svo sé það ekki núna.

„Leikmennirnir bera ábyrgðina fyrst og fremst,“ sagði Scott McTominay á blaðamannafundi fyrir Bayern leikinn. United steinlá 3-0 á heimavelli á móti Bournemouth um helgina.

„Við leikmennirnir gerum okkur alveg grein fyrir því hvar okkar ábyrgð liggur. Við höfum haft marga stórkostlega leikmenn og núna eru sterkir karakterar í klefanum,“ sagði McTominay.

United náði ekki að fylgja eftir sigri á Chelsea í síðustu viku en þetta var líka fyrsti leikur liðsins eftir að Ten Hag var valinn stjóri mánaðarins.

„Þetta er ekki eins og hjá fyrri knattspyrnustjórum þar sem andrúmsloftið hefur verið svolítið eitrað en núna stöndum við allir að baki stjóranum,“ sagði McTominay.

„Ég hef talað um þetta í mörgum viðtölum og svona verður þetta áfram. Við erum líka með frábært þjálfarateymi. Stundum misskilja menn hvað menn eru að hugsa og hvað er sagt á bak við tjöldin,“ sagði McTominay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×