Fótbolti

Mikael baunar á stuðnings­menn Brøndby

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Neville Anderson í leik með AGF.
Mikael Neville Anderson í leik með AGF. getty/Jan Christensen

Landsliðsmaðurinn í fótbolta, Mikael Neville Anderson, skaut létt á stuðningsmenn Brøndby eftir tilraun þeirra til að trufla undirbúning AGF fyrir mikilvægan leik.

Brøndby vann AGF í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í gær, 2-1. Mikael og félagar í AGF fóru hins vegar áfram í undanúrslitin þar sem þeir unnu fyrri leikinn á sínum heimavelli, 2-0.

Nóttina fyrir leikinn var kveikt á flugeldum fyrir framan hótelið sem AGF dvaldi á í Kaupmannahöfn. Hvort sem þetta truflaði undirbúning og svefn AGF-manna er óvíst en þeir voru allavega í vandræðum í fyrri hálfleik í leiknum í gær og voru 2-0 undir eftir hann. Patrick Mortensen minnkaði muninn hins vegar snemma í seinni hálfleik og það mark dugði AGF til að komast áfram.

Eftir leikinn birti Mikael mynd á Instagram sem hann tók af flugeldaruslinu fyrir utan hótelið. Við myndina skrifaði: Flugeldarnir virkuðu ekki. Með textanum voru fjögur hlæjandi tjákn.

Myndin sem Mikael birti á Instagram.

Stuðningsmenn Brøndby skutu fyrst upp flugeldum klukkan 01:30 og svo aftur 03:00. Því fylgdi talsverður hávaði að því er fram kemur í frétt bold.dk.

Mikael var í byrjunarliði AGF í leiknum í gær en var tekinn af velli þegar átta mínútur voru til leiksloka.

AGF mætir Nordsjælland í undanúrslitum bikarkeppninnar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×