Enski boltinn

„Stuðnings­mennirnir lyftu okkur í dag“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Unai Emery gat leyft sér fagna í kvöld.
Unai Emery gat leyft sér fagna í kvöld. ames Gil/Getty Images

„Mér líður virkilega, virkilega vel og er mjög hamingjusamur,“ sagði sigurreifur Unai Emery, knattspyrnustjóri Aston Villa, að loknum 1-0 sigri sinna manna á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Sigurinn þýðir að Villa er í bullandi titilbaráttu.

„Við tengdum vel við stuðningsmennina okkar og jákvæð orka þeirra skilaði sér til okkar. Við þurftum á því að halda þar sem við vorum þreyttir eftir leikinn á miðvikudag,“ sagði Emery en Villa lagði Englandsmeistara Manchester City í miðri viku.

„Við börðumst vel og vörðumst vel sem heild. Við töluðum um mikilvægi þess að halda hreinu gegn Man City og Arsenal. Það er magnað að hafa náð því. Í dag vorum við neðar á vellinum en við hefðum viljað en við þurftum að berjast og það gerðum við.“

„Við erum að bæta okkur andlega og trúum að við getum verið enn sterkari. Við þurfum að leggja mikla vinnu á okkur til að bæta það. Við viljum vera meðal átta efstu liða deildarinnar en mörg lið vilja vera það.“

Aston Villa hefur nú unnið 15 leiki í röð á Villa Park.

„Ég hef aldrei náð því áður og mun aldrei ná því aftur. En við þurfum að átta okkur á að allir leikir eru barátta og næst er það Sheffield United, það verður annar erfiður leikur. Það er frábært að vera hér á Villa Park með stuðningsmönnum okkur sem styðja vel við bakið á okkur.“

Um mögulega titilbaráttu.

„Ég mun kannski tala um það ef við erum á sama stað þegar það eru 30 leikir búnir. Það eru aðeins 16 leikir búnir og við erum meðal efstu fjögurra liða, við verðum að reyna viðhalda því,“ sagði Emery að lokum.


Tengdar fréttir

„Hlutir þurfa líka að falla með þér“

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var eðlilega heldur súr þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir 1-0 tap sinna manna gegn Aston Villa á Villa Park í Birmingham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×