Það er ánægjulegt að sjá hvað mælaborð Byggðastofnunar á heimasíðu stofnunarinnar er að slá í gegn enda á starfsfólkið heiður skilin fyrir sín störf að koma öllum þessum upplýsingum þarna inn og halda jafn vel utan um mælaborðið eins og raun ber vitni.
En hverju á mælaborðið að skila?
„Þetta á að skila því að umræðan sé byggð á gögnum og einhverjum staðreyndum, bæði umræðan og svo ákvarðanir, sem eru teknar hvort sem það er útdeiling á fjármagni eða einhver aðstoð til dæmis sem við erum hérna með hjá Byggðastofnun,“ segir Þorkell Stefánsson sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar.
Í nýju mælaborði, sem verður opnað nú í desember geta allir séð athyglisverðar upplýsingar, sem búið er að taka saman og byggir á gögnum frá Hagstofunni.
„Það eru tekjur einstaklinga eftir svæðum og það sem er skemmtilegt þar er að skoða til dæmis hvernig heildartekjur einstaklinga skiptast niður í launagreiðslur, sem voru árið 2022 71%, lífeyrisgreiðslur 10%, fjármagnstekjur 9% og svo framvegis og svo skoða þetta eftir svæðum,“ segir Þorkell.
Og forstjórinn er stoltur af mælaborðunum.
„Já, þessi mælaborð eru frábær og nýtast ekki bara okkur heldur líka myndi ég segja fólkinu í landinu. Við erum þarna búin að safna saman gríðarlegu magni af gögnum, sem áður voru í einhverjum exelskjölum eða einhverjum möppum, sem eru núna komin á mjög aðgengilegan hátt inn í þessi mælaborð,“ segir Arnar Már Elíasson forstjóri Byggðastofnunar.

Svo er Þorkell og hans fólk búið að finna út hvar hamingjusömustu Íslendingarnir búa
„Það er samkvæmt þessari könnun Vestmanneyingar og íbúar á Snæfellsnesi númer tvö,“ segir hann.
Heimasíða Byggðastofnunar þar sem hægt er að skoða mælaborðið
