Englendingar þurftu að vinna stórsigur gegn Skotum til að halda vonum sínum um efsta sæti riðilsins á lífi og vona að sigurinn yrði að minnsta kosti þremur mörkum stærri en sigur Hollendinga gegn Belgíu.
Raunar gerðu margir ráð fyrir því að Skotar gætu gert nágrönnum sínum í suðri greiða þar sem enska liðið keppir undir hatti Bretlands á Ólympíuleikunum og þess vegna gæti stórt tap verið leið fyrir einhverja leikmenn skoska liðsins inn á leikana. Leikmenn liðsins þvertóku þó fyrir slíkt og sögðu það algjört hneyksli að draga heilindi þeirra í efa.
Í fyrri hálfleik leit þó út fyrir að skoska liðið hefði lítinn áhuga á því að vinna leikinn og Englendingar fóru inn í hálfleikinn með 4-0 forystu eftir mörk frá Alex Greenwood, Beth Mead og tvö frá Lauren James.
Fran Kirby og Lucia Bronze bættu svo sínu markinu hvor við í síðari hálfleik og niðurstaðan varð því 6-0 sigur Englands.
Englendingar þurftu því að treysta á það að Hollendingar myndu ekki vinna Belga stærra en 3-0 til að enska liðið myndi tryggja sér efsta sæti riðilsins. Lineth Beerensteyn skoraði eina mark fyrri hálfleiksins fyrir Hollendinga og staðan því aðeins 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Beerensteyn tvöfaldaði svo forystu Hollands snemma í seinni hálfleik og ljóst að möguleikinn var til staðar fyrir liðið. Vonarneistinn virtist þó vera að slokkna þegar venjulegum leiktíma lauk og hollenska liðið hafði ekki bætt þriðja, og hvað þá fjórða, markinu við.
Damaris Berta Egurrola Wienke tók þá til sinna mála. Hún skoraði þriðja mark hollenska liðsins á fyrstu mínútu uppbótartíma og það fjórða fjórum mínútum síðar. Með mörkunum tveimur tryggði hún Hollendingum 4-0 sigur og um leið sæti í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar og möguleika á sæti á Ólympíuleikunum.