Kínverska liðið skoraði fyrstu tvö mörk leiksins, en það var í eina skiptið sem liðið var yfir í leiknum. Þrátt fyrir það ríkti mikið jafnræði með liðunum lengst af og staðan í hálfleik var jöfn 9-9.
Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks þar til í stöðunni 14-14 þegar senegalska liðið tók öll völd. Senegel skoraði átta af seinustu níu mörkum leiksins og vann að lokum öruggan sjö marka sigur, 22-15.
Þar með er orðið ljóst að Senegal endar í þriðja sæti A-riðils með þrjú stig, en Kínverjar hafna í fjórða og neðsta sæti án stiga. Kínverjar eru því á leið í Forsetabikarinn og verða í riðli með Íslendingum, Grænlendingum og Paragvæ.
Á sama tíma vann Serbía 14 marka sigur gegn Síle í E-riðli, 30-16. Serbar hafna í þriðja sæti riðilsins með tvö stig en Síle rekur lestina án stiga. Síle er því á leið í Forsetabikarinn þar sem liðið verður í riðli með Kasakstan, Íran og Lýðveldinu Kongó.