Telma Ívarsdóttir hefur varið mark Íslands í keppninni til þessa en hún fékk sitt annað gula spjald í 2-1 sigrinum gegn Wales á föstudag og tekur því út leikbann á morgun.
Valið stóð því á milli Fanneyjar Ingu og Guðnýjar Geirsdóttur, og staðfesti Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari það í samtali við RÚV í Danmörku í dag að Fanney Inga yrði í markinu.
Fanney Inga er aðeins 18 ára gömul en var aðalmarkvörður Vals í sumar og varði mark U19-landsliðsins í lokakeppni EM í júlí.
Fanney Inga varði áfram mark U19-landsliðsins í leikjum í október og hefði eflaust verið í markinu síðdegis í dag þegar U20-landsliðið mætir Austurríki á Spáni í úrslitaleik um sæti á HM, ef hún hefði ekki verið valin í A-landsliðið. Þess í stað spilar hún gegn einu af betri landsliðum Evrópu, Danmörku, á morgun.
„Hún er klár í það, ég hef engar áhyggjur af því,“ segir Þorsteinn í samtali við RÚV í dag. „Þetta er ástæðan fyrir því að við tóku Fanneyju inn núna. Að undirbúa hana fyrir það líka ef eitthvað gerist í umspilinu, þá er hún klár í það líka, við þurfum alltaf að reyna að hugsa líka aðeins fram í tímann,“ segir Þorsteinn.
Guðný, sem verður varamarkvörður á morgun, hefur heldur ekki spilað landsleik og Telma er svo sem ekki reynslumikil en hefur spilað níu A-landsleiki. Cecilía Rán Rúnarsdóttir, leikmaður Bayern München, hefur ekkert getað spilað með landsliðinu í haust vegna meiðsla í hné.