Enski boltinn

Þrír stafir gætu komið Haaland í vand­ræði hjá aganefndinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland missti sig alveg við Simon Hooper dómara enda búinn að spila liðsfélaga sinn í gegn á úrslitastundu þegar dómarinn stoppaði leikinn.
Erling Haaland missti sig alveg við Simon Hooper dómara enda búinn að spila liðsfélaga sinn í gegn á úrslitastundu þegar dómarinn stoppaði leikinn. Getty/James Gill

Erling Haaland gjörsamlega trompaðist í blálok leiks Manchester City og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær eftir að dómarinn leyfði ekki hagnað sem hefði væntanlega fært City sigurmarkið í leiknum.

Haaland missti sig við dómarann og fékk að launum gult spjald fyrir þau mótmæli. City náði ekki að skora sigurmarkið og varð að sætta sig við 3-3 jafntefli.

Dejan Kulusevski hafði jafnað metin fyrir Tottenham á 90. mínútu en á fimmtu mínútu í uppbótartíma þá stoppaði Simon Hooper leikinn þegar Jack Grealish var sloppinn í gegn eftir sendingu frá Haaland. Það var vissulega brotið á Haaland en dómarinn rændi hann augljósum hagnaði því norski framherjinn hafði þá sent boltann inn fyrir vörnina á Grealish.

Það skrýtna við þetta allt saman er að það var eins og Hooper hafi gefið merki um hagnað en flautaði svo í flautuna. Flestir eru á því að þarna hafi dómarinn gert stór mistök og rænt City marki.

Haaland var hins vegar ekki runninn reiðin eftir leikinn því hann fór inn á samfélagsmiðla og setti inn færslu.

Það stóð reyndar ekki mikið í færslunni en þessir þrír stafir hans gætu möguleika komið Norðmanninum í vandræði hjá aganefnd ensku deildarinnar.

Hann skrifaði WTF og deildi myndbandi af atvikinu en WTF stendur auðvitað fyrir „What the fuck“ eða „Hvað í andskotanum“.

Þessir þrír stafir gætu verið nóg til að Haaland verði dæmdur fyrir brot á reglu E3.1 sem snýr af því hvað menn segja í viðtölum eða setja inn á samfélagsmiðla.

Haaland er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með fjórtán mörk en hann náði ekki að skora í þessu 3-3 jafntefli í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×