Samband þeirra hefur vakið mikla athygli enda er Swift sennilega vinsælasta tónlistarkona heims og Kelce einn besti leikmaður NFL-deildarinnar.
VanZant var á mála hjá UFC í nokkur ár áður en hún hætti að keppa 2020. Þá byrjaði hún að sitja fyrir á OnlyFans og græðir á tá og fingri á því. Hún hefur meðal annars kallað sjálfa sig drottningu OnlyFans.
Í hlaðvarpi sínu sagði VanZant að Swift væri bara með Kelce til að stækka markhóp sinn.
„Ég held að ástarsaga Taylors Swift og Travis Kelce sé hundrað prósent feik. Látið mig heyra það Swifties [aðdáendur Swift]. UFC aðdáendur hafa gert það. Ég held ég þoli Swifties,“ sagði VanZant.
„Þetta er bara ein stór markaðsbrella. Þetta er stórt fyrir NFL og Taylor Swift er stór og fær núna annan markhóp til að fylgjast með deildinni. Þetta er gott fyrir Taylor Swift, gott fyrir NFL og gott fyrir Travis Kelce. Þetta er allt úthugsað.“
VanZant vann átta af þrettán bardögum sínum á atvinnumannaferlinum. Sá síðasti var í júlí 2020.