Enski boltinn

Hefur ekki fyrir­gefið Beckham og Ince fyrir að skemma HM-drauminn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kim Milton Nielsen rekur David Beckham af velli í leik Englands og Argentínu á HM 1998.
Kim Milton Nielsen rekur David Beckham af velli í leik Englands og Argentínu á HM 1998. getty/Adam Butler

Michael Owen þolir ekki tvo fyrrverandi félaga sína í enska landsliðinu vegna dýrra mistaka þeirra á stórmóti.

Owen stökk fram á sjónarsviðið á HM 1998 og skoraði meðal annars frægt mark í leik gegn Argentínu í sextán liða úrslitum. Englendingar töpuðu leiknum í vítaspyrnukeppni og Owen er enn fúll út í tvo fyrrverandi samherja sína fyrir þeirra þátt í tapinu.

„Fyrir það fyrsta finnst mér að David Beckham hefði ekki átt að fá rautt spjald fyrir að sparka í Diego Simeone en það skiptir ekki máli. Hann gerði mistök og vegna þess er ég gramur,“ sagði Owen.

„Margir leikmenn fá bara eitt tækifæri á HM og hann gerði stór mistök og myndi viðurkenna það. Þetta átti þátt í því að við féllum úr leik sem er stórmál.“

Owen nefndi líka Paul Ince sem klúðraði sinni spyrnu í vítakeppninni gegn Argentínu.

„Þú getur verið gramur út af mörgu ef þú getur notað það orð. Paul Ince klúðraði víti og ég er gramur út í hann fyrir að skjóta boltanum í þessa átt í staðinn fyrir hina, eins og ég er gramur út í Beckham fyrir að sparka í Simeone,“ sagði Owen.

„Ég er gramur út í hann af mörgum ástæðum. Hann gerði mistök og þú hugsar að við hefðum unnið Argentínu ef hann hefði ekki gert þetta. Ég er handviss um að við hefðum unnið þá ellefu gegn ellefu því við vorum með betra lið.“

Owen lék 89 landsleiki fyrir England á árunum 1998-2008 og skoraði fjörutíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×