Fótbolti

Liðs­fé­lagi Orra Steins einn heitasti bitinn á evrópska markaðnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Roony Bardghji fagnar hér marki sínu gegn Manchester Untied á dögunum.
Roony Bardghji fagnar hér marki sínu gegn Manchester Untied á dögunum. Vísir/Getty

Liðsfélagi Orra Steins Óskarssonar hjá FCK í Danmörku er eftirsóttur af mörgum stórliðum í Evrópu og gæti yfirgefið félagið strax í janúar.

Sænska ungstirnið Roony Bardghji er fæddur árið 2005 og þar af leiðandi aðeins 18 ára gamall. Hann er liðsfélagi Orra Steins Óskarssonar hjá FCK og skoraði eitt marka liðsins í sigrinum á Manchester United í Meistaradeildinni á dögunum.

Á leik liðsins gegn Bayern Munchen í kvöld voru fulltrúar fjölmargra evrópskra stórliða mættir á Allianz Arena til að fylgjast með Bardghji sem var í byrjunarliði danska liðsins.

Ítalska stórliðið Juventus er með hann ofarlega á sínum óskalista og þeir Cristiano Giuntoli og Giovanni Manna sem eru yfirmenn íþróttamála hjá félaginu hafa fylgst vel með Bardghji síðustu mánuði.

Þá er Inter sömuleiðis með sænska sóknarmanninn undir smásjánni sem og þá fylgjast forráðamenn Chelsea, Feyenoord, Dortmund, Liverpool Ajax, Barcelona og Bayern Munchen sömuleiðis með gangi mála.

Bardghji á enn eftir að leika A-landsleik fyrir Svíþjóð en sögusagnir fóru af stað í sumar um að hann myndi mögulega velja danska landsliðið fram yfir það sænska. Bardghji sjálfur kvað þessar fréttir þó í kútinn og sagðist munu velja Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×