Enski boltinn

Segir að fót­boltinn hafi leitt til and­láts dóttur sinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maddy Cusack, 1995-2023.
Maddy Cusack, 1995-2023. getty/Cameron Smith

Enska fótboltafélagið Sheffield United rannsakar nú atburði sem gætu hafa leitt til andláts Maddy Cusack í september.

Cusack var varafyrirliði Sheffield United og fyrsti leikmaðurinn sem spilar hundrað leiki fyrir kvennalið félagsins. Hún lést á heimili sínu 20. september, aðeins 27 ára.

Lögreglan í Derbyshire sagði á sínum tíma að ekki væri grunur um að andlát Cusacks hefði borið að með saknæmum hætti.

Fjölskylda Cusacks hefur núna birt líkræðuna sem móðir hennar, Deborah, flutti í jarðarför hennar. Þar segir að eitthvað tengt fótboltanum hafi komið fyrir Cusack í febrúar og brotið hana.

„Fallega dóttir mín, Madelaine. Sorglega og nístandi ástæðan fyrir því að ég þarf að standa hér og tala við ykkur er út af fótbolta,“ sagði móðir Cusacks í ræðunni.

„Frá febrúar var óbugandi og ódrepandi andinn, sem við kölluðum Maddy og vernduðum af öllum okkar mætti, brotinn og hún var tekin frá mér.“

Fjölskyldan sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Sheffield United hafi ráðið fyrirtæki til að rannsaka atburðina sem leiddu til andláts Cusack. Í yfirlýsingunni segir Cusack hafi alltaf verið glöð og kát en eitthvað hafi breyst í febrúar.

Cusack gekk í raðir Sheffield United frá Leicester 2019. Auk þess að spila með liðinu vann hún að markaðsmálum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×