Fótbolti

Sverrir og Stefán skoruðu báðir í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sverrir Ingi kom Midtjylland á bragðið í kvöld.
Sverrir Ingi kom Midtjylland á bragðið í kvöld. Vísir/getty

Stefán Teitur Þórðarson skoraði eina mark Silkeborg er liðið mátti þola 1-4 tap gegn Sverri Inga Ingasyni og félögum í Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Sverrir skoraði fyrsta mark gestanna.

Sverrir kom gestunum í Midtjylland yfir strax á 19. mínútu áður en heimamenn urðu fyrir frekara áfalli þegar Alexander Lind lét reka sig af velli með beint rautt spjald.

Þrátt fyrir að vera manni færri tókst heimamönnum að jafna metin þegar Stefán Teitur setti boltann í netið á fimmtu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var því jöfn í hálfleik, 1-1.

Í síðari hálfleik fór staðan þó að versna til muna fyrir Stefán og félaga og gestirnir í Midtjylland voru komnir með forystuna á ný á 51. mínútu, áður en liðið bætti tveimur mörkun til viðbótar við og vann að lokum öruggan 1-4 sigur.

Með sigrinum stukku Sverrir og félagar upp í annað sæti deildarinnar, en liðið er nú með 33 stig eftir 16 leiki, líkt og topplið FCK. Stefán og félgar í Midtjylland sitja hins vegar í fjórða sæti með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×