Í upphafi mánaðar veitti Duda Morawiecki, þá fráfarandi forsætisráðherra, umboð til stjórnarmyndunar. Þingkosningar fóru fram í október og missti þá flokkur Morawiecki, Lög og réttur (PiS), meirihluta sinn á þingi.
Svo virðist sem Morawiecki hafi ekki tekið endanlega ákvörðun um samsetningu ríkisstjórnar, enda hefur hann ekki tilkynnt hverjir muni sinna ráðherraembættum. Fram kemur í tilkynningu frá pólska forsetaembættinu að Duda muni skipa Morawiecki síðdegis og úthluta ráðherrasætum.
Ný ríkisstjórn verði þá talsvert fámennari en sú fyrri og í henni verði fjöldi kvenna. Ríkisstjórn „stjórnmálamanna og sérfræðinga,“ eins og Morawiecki hefur lýst henni.
Lög og réttur tryggði sér 35 prósent atkvæða í kosningunum í október og varð stærsti flokkurinn á þingi, en missti þrátt fyrir það meirihluta. Borgaravettvangur, flokkur Donald Tusk, hlaut tæplega 31 prósent atkvæða, á meðan mið-hægriflokkurinn Þriðja leiðin hlaut 14 prósent atkvæða og Nýja vinstrið tæplega níu prósent.
Leiðtogar allra annarra flokka á þinginu hafa útilokað stjórnarsamstarf með Lögum og rétti. Flokkarnir Borgaravettvangur, Þriðja leiðin og Nýja vinstrið lýstu því yfir í október að vera viljugir til að mynda saman ríkisstjórn, undir forystu Donalds Tusk.
Ólíklegt má teljast að ný ríkisstjórn Morawiecki nái að tryggja stuðning þingsins, þegar kemur í skaut þess að greiða atkvæði um traust til nýrrar stjórnar. Mun þá líklega koma í hlut þingheims að velja annan til að mynda nýja stjórn, sem líklegt er að yrði Tusk.