Enski boltinn

Fannst Alisson vera stál­heppinn að mark Dias var dæmt af

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manuel Akanji var talinn hafa brotið á Alisson og því var mark Rúbens Dias dæmt af.
Manuel Akanji var talinn hafa brotið á Alisson og því var mark Rúbens Dias dæmt af. getty/Michael Regan

Jamie Carragher segir að Alisson, markvörður Liverpool, hafi verið stálheppinn að mark Rúbens Dias, miðvarðar Manchester City, hafi verið dæmt af í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Dias hélt að hann hefði komið City í 2-0 í seinni hálfleik þegar hann skoraði eftir hornspyrnu. Markið var hins vegar dæmt af þar sem Manuel Akanji braut á Alisson. Að mati Carraghers var það hæpinn dómur.

„Fyrir mér voru Liverpool og Alisson stálheppin,“ sagði Carragher um markið sem var dæmt af.

„Ef dómarinn gefur þetta ekki segir VAR ekki að þetta sé brot. Það er ekki séns. Markvörður í þessum gæðaflokki og Akanji gerði lítið. Þetta var eins og miðvörður og framherji væru í skallaeinvígi. Ég vil að markvörðurinn minn leysi þetta. Alisson hlýtur að vera vonsvikinn með frammistöðu sína í dag. Hann var ekki í lagi.“

Alisson gaf boltann klaufalega frá sér í aðdraganda marksins sem Erling Haaland skoraði fyrir City.

Það kom þó ekki að sök því Trent Alexander-Arnold jafnaði fyrir Liverpool tíu mínútum fyrir leikslok. Lokatölur á Etihad því 1-1.

City er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 29 stig, einu stigi á undan Liverpool sem er í 3. sætinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×