Fótbolti

Sjáðu hvernig Kane sló marka­metið í fyrstu leikjunum með Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fagnar einu marka sinna fyrir Bayern München.
Harry Kane fagnar einu marka sinna fyrir Bayern München. EPA-EFE/ANNA SZILAGYI

Harry Kane hefur raðað inn mörkum á fyrsta tímabili sínu með þýska liðinu Bayern München og hann er þegar búinn breyta metaskrá þýsku deildarinnar á fyrstu mánuðum sínum í Þýskalandi.

Bayern keypti enska landsliðsframherjann frá Tottenham í ágúst og Kane hefur heldur betur smellpassað í lið Bæjara.

Hann hefur skorað sautján mörk í fyrstu ellefu deildarleikjum sínum og bætti þar með met Robert Lewandowski sem skoraði á sínum tíma sextán mörk í fyrstu ellefu leikjunum.

Kane hefur líka skorað fjögur mörk í Meistaradeildinni og þetta er því strax orðið tuttugu marka tímabil hjá honum og það um miðjan nóvember.

Kane er að sýna það og sanna að hann er magnaður markaskorari. Hann er vissulega að skora eitthvað úr vítaspyrnum en flest markanna er hann að skora með yfirveguðum afgreiðslum úr teignum. Hann er líka búinn að skora fullt af skallamörkum á þessari leiktíð og svo má ekki gleyma markinu sem hann skoraði fyrir aftan miðju.

Þýska Bundesligan hefur nú tekið saman þessi sautján mörk og sett saman í eitt myndband. Öll mörkin úr deildinni má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×