Eftir þung og erfið síðustu ár hjá landsliðinu þá er tilefni til bjartsýni nú þegar það er raunhæfur möguleiki að komast í hóp þeirra 24 þjóða sem keppa um Evrópumeistaratitilinn sumarið 2024.
Íslenska liðið var síðasta liðið inn í umspilið um laus þrjú sæti og endaði síðan í B-deildarumspilinu eftir dráttinn í gær.
Það er alltaf talað um að það skipti mestu máli að fá heimaleik en þegar þú ert ekki með heimavöll þá er nú hægt að segja að Knattspyrnusamband Íslands hafði í raun heppnina með sér með að lenda á útivelli í báðum leikjunum. Það var reyndar alltaf ljóst að fyrri leikurinn yrði á útivelli.
Laugardalsvöllurinn hýsir ekki fótboltaleik í mars og því hefði KSÍ þurft að finna hentugan leikvang erlendis til að taka af sér hlutverk heimavallar Íslands. Það er ef íslenska liðið kæmist í úrslitaleikinn um laust sæti. Sá leikur er bara fjórum dögum eftir undanúrslitaleikinn og því hefði þurft að gera ráðstafanir og leigja leikvang hvernig sem færi.
Jú, heimaleikur Íslands hefði ekki farið fram á Íslandi. Þessu hefur verið hótað af Alþjóðasamböndum í handbolta og körfubolta þar sem íþróttahöllin okkar í Laugardalnum er á endalausum undanþágum en hefði orðið að veruleika fyrir fótboltalandsliðið í mars.
Þess í stað mætir Ísland hinum heimilislausu liðum evrópska landsliðsfótboltans. Það eru þó ekki skortur á nothæfum þjóðarleikvangi sem kemur í veg fyrir heimaleikina þeirra eins og hjá okkur Íslendingum.
Stríðsástand í Úkraínu og Ísrael sjá til þess að landslið þeirra þurfa að spila heimaleiki sína erlendis.
Ísland mætir Ísrael á útivelli undanúrslitum umspilsins en sá leikur verður spilaður á hlutlausum velli. Líklegast er að sá leikur fari fram í Ungverjalandi og þá jafnvel í Búdapest þar sem leið Íslands á síðasta Evrópumót endaði með grátlegu tapi.
Takist okkar strákum að slá út Ísraelsmenn þá bíður liðsins annar útileikur á móti annaðhvort Úkraínu eða Bosníu sem mætast í hinum undanúrslitaleiknum. Verði það Úkraína verður leikurinn á hlutlausum velli en úkraínska liðið hefur spilað leiki sína í Póllandi, Slóvakíu, Tékklandi og Þýskalandi í þessar undankeppni.
Það var kannski við hæfi að heimilislausu landsliðin lendi saman í umspilinu. Það eru auðvitað mjög sorglegar ástæður fyrir því Úkraína og Ísrael geti ekki spilað heima hjá sér en hreinlega vandræðalegt fyrir Ísland að vera í þessari stöðu.