Fótbolti

Segir af sér en vill samt halda á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Tebas hefur verið forseti spænsku deildarinnar frá 2013.
Javier Tebas hefur verið forseti spænsku deildarinnar frá 2013. Getty/David Benito

Javier Tebas, forseti spænsku deildarinnar, tilkynnti um afsögn sína í gær en hann vildi boða til nýrra kosninga um forsetaembættið.

Tebas vill halda áfram og tryggja sér nýtt umboð í þessum komandi kosningum. Það yrði hans fjórða kjörtímabil.

Það er þó ekki eins og Tebas sé að tapa miklum tíma sem forseti við þessa afsögn sína. Þetta kjörtímabil hans átti nefnilega að enda 23. desember næstkomandi.

Það tekur um einn mánuð að undirbúa kosningarnar en hluti af ástæðunni fyrir að kosningum er flýtt er svo að þær stangist ekki á við forsetakosningar í spænska knattspyrnusambandinu.

Hinn 61 árs gamli Tebas þykir ekki líklegur til að fá mikla samkeppni um forsetastöðuna. Hann hefur stuðning forseta liða í bæði A- og B-deild. Hann fékk ekkert mótframboð í kosningunum 2013 og 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×