Félög ensku úrvalsdeildarinnar greiddu atkvæði í dag um reglur sem myndu koma í veg fyrir að félög gætu fengið leikmenn á láni frá öðrum félögum sem væru með sömu eigendur. Alls vildu þrettán félög koma í veg fyrir þess konar flæði leikmanna, en sjö félög greiddu atkvæði gegn tillögunni.
Fjórtán atkvæði þurfti til að reglurnar myndu taka gildi og því vantaði aðeins eitt upp á og tillagan var því felld. Bannið átti aðeins að gilda um lánssamninga til ensku úrvalsdeildarfélaganna, en ekki frá þeim, og átti það aðeins að gilda í janúar áður en hægt væri að finna lausnir fyrir sumargluggann.
Það þýðir að lið eins og Newcastle, sem er í eigu sádi-arabíska fjárfestingasjóðsins PIF, mun geta sótt leikmenn úr sádi-arabísku deildinni á láni í janúar. Þar eru fjögur félög í eigu PIF, en þau eru AL-Nassr, Al-Hilal, Al-Ittihad og Al-Ahli.
Með liðunum fjórum leika leikmenn á borð við Cristiano Ronaldo, Sadio Mané, Aymeric Laporte, Karim Benzema, N'Golo Kante, Neymar, Kalidou Koulibaly, Riyad Mahrez og Edouard Mendy. Ruben Neves, fyrrverandi fyrirliði Wolves, er einnig á mála hjá Al-Hilal og hefur hann verið orðaður við komu til Newcastle.