Fótbolti

Rændi Manzano Úkraínu­menn víti og EM-sætinu?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Átti Úkraína að fá vítaspyrnu þarna?
Átti Úkraína að fá vítaspyrnu þarna? stöð 2 sport

Úkraínumenn töldu sig svikna um vítaspyrnu í uppbótartíma gegn Ítalíu í hreinum úrslitaleik um sæti á EM í Þýskalandi á næsta ári.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli sem dugði Ítölum til að komast á EM. Úkraínumenn þurfa hins vegar að fara í umspil um sæti á EM.

Það hefði getað farið á hinn veginn ef Úkraína hefði fengið víti í uppbótartíma þegar Mykhailo Mudryk féll í vítateignum eftir baráttu við Bryan Cristante.

Dómari leiksins, Jesús Gil Manzano, dæmdi ekki neitt og dómnum var ekki snúið við eftir skoðun á myndbandi. Manzano var hins vegar ekki kallaður út að hliðarlínu til að kíkja á atvikið.

Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Úkraínumenn vilja fá víti

Serhiy Rebrov, þjálfari Úkraínu, var skiljanlega svekktur með að hafa ekki fengið víti þegar Cristante virtist brjóta á Mudryk.

„Mér fannst þetta vera víti en við erum með dómara og VAR. Við ákveðum þetta ekki. Dómarinn var ekki kallaður til að skoða atvikið,“ sagði Rebrov.

Þetta atvik kemur nokkrum dögum eftir að Aleksander Ceferin sagði að það yrði hræðilegt ef Ítalía kæmist ekki á EM. Rebrov og aðrir Úkraínumenn voru afar ósáttir við þau ummæli forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×