Aron Guðmundsson skrifar frá Lisabon.
Ísland mætir til leiks án þess að eiga möguleika á því að komast upp úr riðlinum eftir þungt 4-2 tap gegn Slóvakíu á fimmtudaginn síðastliðinn.
Það skal engum dyljast að á meðan á landsliðsverkefnum stendur er nóg um að vera hjá bæði þjálfarateymi, leikmönnum og öðru starfsliði íslenska landsliðsins og að nægu að huga.
Við spurðum nokkra leikmenn íslenska landsliðsins í fótbolta hvað þeir geri milli æfinga, leikja og funda í landsliðsverkefnum til þess að stytta sér stundir.
Athuga ber að viðtölin voru tekin í Vínarborg á þriðjudaginn síðastliðinn þar sem að landsliðið undirbjó sig fyrir leikina gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM.
Aron Einar Gunnarsson (103 A-landsleikir, 5 mörk):
„Staða mín er bara þannig að ég er mikið í meðhöndlun. Þá er ég að klára stúdentinn á fjölgreinabraut. Svo eru menn annað hvort bara í Play Station eða slaka á. Endurheimt er mjög mikilvæg í þessum bransa sem við erum í. Sérstaklega þar sem að stutt er á milli leikja hjá mönnum.“
Arnór Ingvi Traustason (52 A-landsleikir, 5 mörk):
„Sjúkraþjálfararnir fá að finna fyrir því. Við erum að pútta, hendum okkur í spa-ið og það er spilað. Og eins hér í Vín (þar sem Arnór spilaði á sínum tíma hjá Rapid Wien) þá hef ég farið og hitt fólk sem ég kynntist hér á sínum tíma. Það er margt í boði en svo er það bara slökun líka.“
Orri Steinn Óskarsson(5 A-landsleikir, 2 mörk):
„Það er bara mismunandi eftir mönnum. Ég persónulega er mikið í því að spila spil, kíkja út í göngutúra, horfa á þætti eða vera eitthvað með strákunum. Það er bara mjög rólegt og maður safnar kröftum fyrir æfingar og leiki. Maður vill ekki vera gera eitthvað of mikið. Maður kíkir kannski í spa-ið en það er bara mjög fínt að vera á góðum hótelum og slaka bara á.“
Arnór Sigurðsson (29 A-landsleikir, 2 mörk):
„Ég er mikið að spila lúdó svo er vinsælt að spila tíu. Ég er reyndar ekki kominn inn í það teymi. Svo er maður inni í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfurunum að spjalla. Við hittumst ekki oft og því er alltaf gaman og nóg að segja frá þegar að við komum saman aftur.
Þetta er öðruvísi en hjá félagsliði manns. Margir af leikmönnum landsliðsins eru góðir vinir manns til langs tíma. Leikmenn sem maður hefur þekkt upp öll yngri landsliðin. Það er alltaf extra skemmtilegt að hanga á hótelinu, spila og gera nánast ekki neitt.“