Fótbolti

Láta sér ekki leiðast: Sá reynslu­­mesti klárar stúdentinn | „Mikið í með­höndlun“

Aron Guðmundsson skrifar
VIð spurðum nokkra leikmenn íslenska landsliðsins í fótbolta hvað þeir hefðu fyrir stafni á dauðum stundum í landsliðsverkefnum.
VIð spurðum nokkra leikmenn íslenska landsliðsins í fótbolta hvað þeir hefðu fyrir stafni á dauðum stundum í landsliðsverkefnum. Vísir/Samsett mynd

Íslenska landsliðið er nú mætt til Lisabon í Portúgal þar sem framundan er leikur við ansi sterkt lið heimamanna á morgun í lokaumferð undankeppni EM í fótbolta.

Aron Guðmundsson skrifar frá Lisabon.

Ísland mætir til leiks án þess að eiga möguleika á því að komast upp úr riðlinum eftir þungt 4-2 tap gegn Slóvakíu á fimmtudaginn síðastliðinn.

Það skal engum dyljast að á meðan á landsliðsverkefnum stendur er nóg um að vera hjá bæði þjálfarateymi, leikmönnum og öðru starfsliði íslenska landsliðsins og að nægu að huga.

Við spurðum nokkra leik­menn ís­lenska lands­liðsins í fót­bolta hvað þeir geri milli æfinga, leikja og funda í lands­liðs­verk­efnum til þess að stytta sér stundir.

At­huga ber að við­tölin voru tekin í Vínar­borg á þriðju­daginn síðast­liðinn þar sem að lands­liðið undir­bjó sig fyrir leikina gegn Slóvakíu og Portúgal í undan­keppni EM.

Aron Einar Gunnarsson (103 A-landsleikir, 5 mörk):

Klippa: Aron Einar: Hvað gera leikmenn til að stytta sér stundir?

„Staða mín er bara þannig að ég er mikið í með­höndlun. Þá er ég að klára stúdentinn á fjöl­greina­braut. Svo eru menn annað hvort bara í Play Station eða slaka á. Endur­heimt er mjög mikil­væg í þessum bransa sem við erum í. Sér­stak­lega þar sem að stutt er á milli leikja hjá mönnum.“

Arnór Ingvi Traustason (52 A-landsleikir, 5 mörk):

Klippa: Arnór Ingvi: Hvað gera landsliðsmenn til að stytta sér stundir?

„Sjúkra­þjálfararnir fá að finna fyrir því. Við erum að pútta, hendum okkur í spa-ið og það er spilað. Og eins hér í Vín (þar sem Arnór spilaði á sínum tíma hjá Rapid Wien) þá hef ég farið og hitt fólk sem ég kynntist hér á sínum tíma. Það er margt í boði en svo er það bara slökun líka.“

Orri Steinn Óskars­son(5 A-landsleikir, 2 mörk):

Klippa: Orri Steinn: Hvað gera landsliðsmenn til að stytta sér stundir?

„Það er bara mis­munandi eftir mönnum. Ég per­sónu­lega er mikið í því að spila spil, kíkja út í göngu­túra, horfa á þætti eða vera eitt­hvað með strákunum. Það er bara mjög ró­legt og maður safnar kröftum fyrir æfingar og leiki. Maður vill ekki vera gera eitt­hvað of mikið. Maður kíkir kannski í spa-ið en það er bara mjög fínt að vera á góðum hótelum og slaka bara á.“

Arnór Sigurðs­son (29 A-landsleikir, 2 mörk):

Klippa: Arnór Sig: Hvað gera landsliðsmenn til þess að stytta sér stundir?

„Ég er mikið að spila lúdó svo er vin­sælt að spila tíu. Ég er reyndar ekki kominn inn í það teymi. Svo er maður inni í með­höndlun hjá sjúkra­þjálfurunum að spjalla. Við hittumst ekki oft og því er alltaf gaman og nóg að segja frá þegar að við komum saman aftur. 

Þetta er öðru­vísi en hjá fé­lags­liði manns. Margir af leik­mönnum lands­liðsins eru góðir vinir manns til langs tíma. Leikmenn sem maður hefur þekkt upp öll yngri lands­liðin. Það er alltaf extra skemmti­legt að hanga á hótelinu, spila og gera nánast ekki neitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×