Fótbolti

Jafnt í stór­leiknum og vondur dagur fyrir Parísar­liðin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sam Kerr fagnar marki sínu fyrir Chelsea í kvöld.
Sam Kerr fagnar marki sínu fyrir Chelsea í kvöld. Vísir/Getty

Real Madrid og Chelsea mættust í stórleik í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Sænska liðið Häcken vann góðan útisigur í París.

Leikur Real Madrid og Chelsea var góð skemmtun. Spænska landsliðskonan Olga kom Real Madrid yfir á 10. mínútu en Niamh Charles jafnaði fyrir Chelsea rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Stórstjarnan Sam Kerr kom Chelsea í 2-1 forystu á 74. mínútu en Olga jafnaði metin fimm mínútum síðar með öðru marki sínu í leiknum. Lauren James var nálægt því að tryggja Chelsea sigurinn undir lokin þegar skot hennar fór í þverslána. Lokatölur 2-2 og stórliðin því bæði með eitt stig eftir fyrsta leik riðlakeppninnar.

Niamh Charles skoraði mark á lokasekúndum leiksins sem var dæmt af vegna rangstöðu. Charles var mjög langt frá því að vera rangstæð en flaggið gæti hafa farið á loft þar sem Sam Kerr var fyrir innan og var í baráttu við leikmenn Real um boltann.

Í París voru sænsku meistararnir í Häcken í heimsókn og mættu liði París FC. Rosa Kafaji kom Häcken yfir í fyrri hálfleik og Anna Sandberg tvöfaldaði forystu Häcken þegar hún kláraði úr þröngu færi á 56. mínútu.

Julie Dufour minnkaði muninn skömmu síðar en leikmenn París FC komus ekki lengra og Häcken tryggði sér stigin þrjú.

Þetta var ekki góður dagur fyrir lið frá París því í Amsterdam vann Ajax 2-0 sigur á liði PSG. Tiny Hoekstra og Sherida Spitze skoruðu mörkin en lið PSG fór alla leið í 8-liða úrslit keppninnar í fyrra.

Úrslit kvöldsins

Real Madrid - Chelsea 2-2

París FC - Häcken 1-2

Ajax - PSG 2-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×