Enski boltinn

Emma fær jafn­vel borgað og þjálfari karla­lands­liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emma Hayes hefur ástæðu til að brosa eftir að þessi sögulegi samningur er í höfn.
Emma Hayes hefur ástæðu til að brosa eftir að þessi sögulegi samningur er í höfn. Getty/Harriet Lander

Emma Hayes var í gær staðfest sem næsti þjálfari kvennaliðs Bandaríkjanna í fótbolta en þetta var búið að leika út áður og varla mikið leyndarmál lengur.

Það sem vakti kannski mesta athygli var stærð samningsins sem er sögulegur. Bandarískir fjölmiðlar segja nefnilega frá því að Hayes fái jafnhá laun og þjálfari bandaríska karlalandsliðsins.

Hann heitir Gregg Berhalter og er að fá 1,6 milljón dollara í árslaun eða 228 milljónir króna. Með þessu verður hin 47 ára gamla Emma launahæsti kvenþjálfari heims og bandaríska sambandið lýsti því líka yfir í fréttatilkynningu sinni að engin kona í fótboltaþjálfun væri með hærri laun.

Í fréttum af málinu í Bandaríkjunum kemur fram að ein af kröfum Hayes var að fá jafnmikið borgað og karl í sama starfi hjá sambandinu væri að fá. Það þurfti líka mikið til að fá hana til að hætta hjá Chelsea.

Hayes hefur gert frábæra hluti með Chelsea undanfarinn áratug en var búin að gefa það út að hún myndi hætta með liðið eftir þetta tímabil.

Undir stjórn Hayes hefur Chelsea unnið sex Englandsmeistaratitla og fimm bikarmeistaratitla. Hún tók við liðinu í ágúst 2012 og hefur því stýrt liðinu í meira en ellefu ár. Chelsea á hins vegar eftir að vinna Meistaradeildina undir hennar stjórn en hún hefur tækifæri til að bæta úr því að lokatímabilinu.

Hayer þekkir til Bandaríkjanna því hún þjálfaði í bandaríska háskólaboltanum á sínum tíma og var þjálfari Chicago Red Stars áður en hún kom til Chelsea.

Fyrsta verkefni hennar með bandaríska landsliðið verður í júní en hún mun þá byrja að undirbúa liðið fyrir Ólympíuleikana í París næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×