Enski boltinn

Hneykslaðir á Glazerunum fyrir að mæta ekki í jarðar­förina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sir Bobby Charlton var lagður til hinstu hvílu í gær.
Sir Bobby Charlton var lagður til hinstu hvílu í gær. getty/Karwai Tang

Lítil ánægja er hjá stuðningsmönnum Manchester United með þá ákvörðun eigenda félagsins að mæta ekki í jarðarför Sir Bobbys Charlton.

Jarðarför Charltons fór fram í dómkirkjunni í Manchester í gær. Fjölmennt var í henni en athygli vakti að enginn fulltrúi Glazer-fjölskyldunnar, eigenda United, var viðstaddur.

Glazerarnir voru hræddir um að stuðningsmenn United myndu nýta tækifærið til mótmæla gegn þeim og vildu ekki að athyglin beindist að þeim í jarðarförinni.

Stuðningsmenn United eru margir hverjir hneykslaðir á Glazerurnum fyrir að láta ekki sjá sig í jarðarförinni og segja það enn eitt dæmi um hversu lítið þeim er annt um félagið sem þeir eiga.

„Það kemur ekki á óvart að enginn frá Glazer-fjölskyldunni sá sér fært að votta sennilega besta leikmanni í sögu félagsins virðingu sína. Glazerarnir hafa sýnt aftur og aftur að þeir eru úr öllum tengslum við félagið og stuðningsmennina og þetta var enn eitt dæmið um það,“ sagði í yfirlýsingu stuðningsmannahópsins The 1958 sem berst gegn Glazer-fjölskyldunni.

Bandaríkjamennirnir eru á barmi þess að selja fjórðungshlut í United til Íslandsvinarins Jim Radcliffe. Hann vonast til að fá að stýra öllu því sem kemur að fótboltanum hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×