„Venjulega erum við í 120 til 130 sjúkraflutningum á sólarhring en í gær voru þeir 155,“ segir Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.
Hann segir að mikið álag hafi verið í sjúkraflutningum undanfarna daga en fjöldinn hafi verið mestur undanfarinn sólarhring. Um hafi verið að ræða margskonar slys.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sjúkraflutningamenn hafa þurft að bíða fyrir utan slysadeild vegna anna. Í júní í fyrra greindi Vísir frá því þegar sex sjúkrabílar biðu í röð fyrir utan Landspítalann.
Sagði Vernharð Guðnason, deildarstjóri á aðgerðarsviði hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins við tilefnið að slíkt kæmi einstöku sinnum fyrir. Sjaldgæft væri að biðröðin væri eins löng og þar síðasta sumar.