Fótbolti

Mark dæmt af Napoli eftir svipað at­vik og henti Arsenal

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Markið sem var dæmt af vegna bakhrindingar Napoli samanborið við mark sem var ekki dæmt af eftir bakhrindingu Joelinton.
Markið sem var dæmt af vegna bakhrindingar Napoli samanborið við mark sem var ekki dæmt af eftir bakhrindingu Joelinton.

Napoli þurfti að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Union Berlin í Meistaradeildinni eftir að mark var dæmt af liðinu vegna bakhrindingar.

Napoli kom boltanum fyrst í netið á 32. mínútu en markið var dæmt ólöglegt af VAR dómurum leiksins vegna bakhrindingar í aðraganda þess. Atvikið svipaði mjög til þess í leik Newcastle og Arsenal sem hefur verið á milli tanna fólks á dögunum. 

Matteo Politano tók þó forystuna fyrir heimamenn skömmu síðar, Napoli ógnaði marki gestanna í sífellu allan fyrri hálfleikinn en komst ekki oftar á blað. 

David Fofana jafnaði svo metin fyrir Union Berlin á 52. mínútu leiksins þegar hann fylgdi vörðu skoti Sheraldo Becker eftir. Napoli hafði áfram yfirburði í leiknum en tókst ekki að skora sigurmarkið. 

Real Sociedad vann 3-1 sigur þegar liðið tók á móti Benfica í D riðlinum. Heimamenn voru komnir þremur mörkum yfir eftir aðeins 21. mínútna leik og voru nálægt því að bæta við fjórða markinu skömmu síðar en Brais Méndez skaut í stöng. Gestirnir frá Benfica fengu fín færi í leiknum og klóruðu svo í bakkann í upphafi seinni hálfleiks en tókst ekki að skora fleiri. 

Mikil ánægja var meðal heimamanna með sigurinn. Real Sociedad fer með þessum sigri í efsta sæti riðilsins, með þrjá sigra og eitt jafntefli í fyrstu fjórum leikjunum. Benfica er taplaust í síðustu fimm leikjum sínum heima fyrir en hefur tapað öllum fjórum leikjunum í Meistaradeildinni.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×