Fótbolti

Vill sjá ís­lenska lands­liðið spila mikil­vægan heima­leik í Mal­mö

Aron Guðmundsson skrifar
Åge Hareide, landsliðsþjálfari, og Guðlaugur Victor.
Åge Hareide, landsliðsþjálfari, og Guðlaugur Victor. Vísir/Hulda Margrét

Åge Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag þar sem hann var meðal annars spurður út í stöðuna á Laugardalsvelli og þá ákvörðun KSÍ að óska eftir því að leika mikilvæga leiki utan landssteinanna í mars á næsta ári. 

Eins og greint hefur verið frá hefur KSÍ hefur óskað eftir því að leika möguleiga heimaleiki sína í umspili fyrir EM og í Þjóðadeildinni á erlendri grundu. Leikirnir fara fram snemma árs 2024. Ástæðan er aðstöðuleysi sambandsins yfir vetrartímann hér á landi.

Ísland mætir Slóvakíu og Portúgal í tveimur útileikjum í næstu viku. Möguleikarnir á því að tryggja sér sæti á EM á næsta ári með því að komast beint upp úr riðlinum eru til staðar en eru litlir og því er Hareide einnig að horfa til mögulegra umspilsleikja í gegnum Þjóðadeild UEFA í mars á næsta ári til að tryggja EM sætið.

Litlar líkur eru á því að heimaleikur Íslands í mögulegu umspili verði spilaður hér á landi.

„Auðvitað er þetta ekki góð staða en við getum ekki ráðið við veðurfarslegar aðstæður í Reykjavík í mars. Eina sem hægt er að gera í stöðunni til framtíðar er að byggja nýjan völl eða setja hita undir Laugardalsvöll,“ sagði Hareide um stöðu mála á blaðamannafundinum fyrr í dag.

Slíkt verður ekki gert fyrir mögulegan umspilsleik í Þjóðadeildinni í mars á næsta ári. 

„Ég hef lagt til við KSÍ að við myndum spila í Malmö ef það er möguleiki,“ sagði Hareide en hann á góðar tengingar þangað eftir að hafa starfað sem aðalþjálfari Malmö á sínum tíma um nokkurra ára skeið. 

„Ég hef verið þar áður og veit að stuðningsmenn Malmö myndu styðja vel við bakið á okkur. Þá er tiltölulega auðvelt fyrir stuðningsmenn Íslands að ferðast þangað. Ég væri til í að við myndum spila þar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×