Enski boltinn

Fyrir­liði Newcastle segir að Jorginho hafi neitað að taka í höndina á sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamaal Lascelles reynir árangurslaust að taka í höndina á Jorginho.
Jamaal Lascelles reynir árangurslaust að taka í höndina á Jorginho. getty/Ian MacNicol

Fyrirliði Newcastle United segir að fyrirliði Arsenal hafi neitað að taka í höndina á sér eftir leik liðanna á laugardaginn.

Newcastle varð fyrsta liðið til að vinna Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þegar Skjórarnir báru sigurorð af Skyttunum á St James' Park, 1-0.

Anthony Gordon skoraði eina mark leiksins á 64. mínútu. Það var umdeilt í meira lagi en það var skoðað í þaula áður en það var dæmt gilt. Arsenal-menn voru verulega ósáttir við dómgæsluna og þeim var ekki runnin reiðin eftir leik, allavega ef marka má ummæli Jamaals Lascelles, fyrirliða Newcastle.

„Ég er bara svo glaður að við unnum þá. Fyrirliðinn þeirra, Jorginho, vildi ekki taka í spaðann á mér eftir leikinn,“ sagði Lascelles. „Ég var brjálaður. Ég myndi aldrei neita að taka í hendina á fyrirliða andstæðingsins, ekki möguleiki.“

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, lét gamminn geysa í viðtali eftir leikinn á laugardaginn.

„Þetta er algjörlega til skammar, þannig líður mér og öllum leikmönnunum í búningsherberginu,“ sagði Arteta. „Mér líður illa, líkt og ég sé veikur, þannig líður mér með það að vera hluti af þessu.“

Arsenal gaf svo út yfirlýsingu í gær þar sem félagið tók undir gagnrýni Artetas og óskaði eftir betri dómgæslu í ensku úrvalsdeildinni. Leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn ættu það skilið.

Arsenal er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig, fjórum stigum og tveimur sætum á undan Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×