Enski boltinn

Clattenburg segir að mark Newcastle hafi verið ó­lög­legt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joelinton gerir sig tilbúinn til að skalla boltann á Anthony Gordon.
Joelinton gerir sig tilbúinn til að skalla boltann á Anthony Gordon. getty/Stu Forster

Mark Clattenburg, sem var á sínum tíma einn fremsti fótboltadómari heims, segir að sigurmark Anthonys Gordon fyrir Newcastle United gegn Arsenal hefði ekki átt að standa.

Gordon skoraði eina mark leiksins þegar Newcastle sigraði Arsenal á St James' Park á laugardaginn. Markið var dæmt gilt eftir langa bið. Þrennt var skoðað á myndbandi; hvort boltinn hefði farið út af, hvort Joelinton hafi brotið af sér þegar hann skallaði boltann á Gordon og loks hvort markaskorarinn hafi verið rangstæður.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, blés hressilega á blaðamannafundi eftir leik og gagnrýndi dómgæsluna. 

„Þetta er algjörlega til skammar, þannig líður mér og öllum leikmönnunum í búningsherberginu,“ sagði Arteta. „Mér líður illa, líkt og ég sé veikur, þannig líður mér með það að vera hluti af þessu.“

Arsenal sendi svo frá sér yfirlýsingu í gær þar sem það sagðist taka undir ummæli Artetas. 

„Arsenal styður heilshugar ummæli Mikel Arteta eftir leik vegna óásættanlegrar dómgæslu og mistaka í VAR dómgæslunni á laugardagskvöld,“ sagði í yfirlýsingunni.

Í pistli sínum fyrir Daily Mail segir Clattenburg að mark Gordons gegn Arsenal hafi verið ólöglegt þar sem Joelinton hafi klárlega ýtt við Gabriel þegar hann skallaði boltann til hliðar.

Clattenburg segir að dómarateymið hafi verið með aðrar ákvarðanir réttar, meðal annars að sleppa því að reka Kai Havertz út af fyrir glannalega tæklingu á Sean Longstaff en mörgum þótti Þjóðverjinn gera nóg til að verðskulda rautt spjald.

Arsenal er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig, þremur stigum á eftir toppliði Manchester City. Tapið fyrir Newcastle var það fyrsta hjá liðinu í deildinni á tímabilinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×