Enski boltinn

Ten Hag: Búnings­her­bergið er fullt af leik­mönnum sem berjast fyrir hvorn annan

Dagur Lárusson skrifar
Erik Ten Hag.
Erik Ten Hag. Getty

Erik Ten Hag, þjálfari Manchester United, segir að hann hafi ekki þurft að sanna það að leikmenn liðsins væru ennþá hliðhollir honum.

Manchester United hefur gengið heldur illa á tímabilinu en náði í mikilvæg þrjú stig gegn Fulham í gær þegar Bruno Fernandes, fyrirliði, skoraði glæsilegt mark í blálokin.

„Búningsherbergið er fullt af leikmönnum sem berjast fyrir hvorn annan, ekki bara mig. Þeir vita hverjar kröfurnar eru hjá þessu félagi og þær eru að þeir eiga að vinna hvern einasta leik. Það er viðhorfið sem þú þarft að hafa ef þú vilt spila fyrir þetta félag,“ byrjaði Ten Hag að segja.

„Þetta var góð frammistaða og ég er mjög sáttur, sérstaklega með karakterinn í liðinu.“

„Ég var sáttur með það hvernig við pressuðum þá, Fulham spilar mjög vel en við leyfðum þeim aldrei að spila útfrá aftasta manni. Það er klárt mál að við þurfum að skapa meira en þegar við vorum með boltann sýndum við mun meiri yfirvegun og það er framför,“ endaði Erik Ten Hag að segja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×