Enski boltinn

Man. United ætti að vera enn neðar miðað við gæði mark­tæki­færa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mason Mount var keyptur til Manchester United í sumar til að hjálpa við að skapa færi í sóknarleiknum en hann hefur ekki byrjað vel.
Mason Mount var keyptur til Manchester United í sumar til að hjálpa við að skapa færi í sóknarleiknum en hann hefur ekki byrjað vel. AP/Dave Thompson

Manchester United hefur fengið fleiri stig í ensku úrvalsdeildinni en þeir hafa átt skilið ef marka má tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar yfir xG eða áætluð mörk.

Áætluð mörk eru reiknuð út frá gögnum yfir mörk og færanýtingu en út frá því er fundið út hversu miklar líkur eru á því að hvert færi skili marki miðað við söguna af nýtingu svipaðra færa.

Sky Sports birti töflu ensku úrvalsdeildarinnar eins og hún ætti að líta út ef farið værið eftir xG.

Manchester United er í áttunda sæti deildarinnar í dag en liðið er ellefu stigum á eftir toppliði Tottenham og átta stigum frá Meistaradeildarsæti. Samkvæmt xG þá ætti liðið hins vegar að vera þremur sætum neðar eða í ellefta sætinu. United ætti að vera með tæpum þremur stigum minna en þeir eru með.

Newcastle United er bara í sjötta sæti í raunheimi en ætti að vera á toppnum í deildinni ef farið væri eftir gæði marktækifæra liðsins. Newcaste ætti að vera með rúmum fjórum stigum meira.

Topplið Tottenham hefur aftur á móti fengið 8,5 stigum meira en þeir hafa átti skilið út frá færasköpun sinni og eru þeir því aðeins í sjötta sæti í xG stigatöflunni.

Miklu munar á Chelsea sem ætti að vera í fimmta sæti en er í ellefta sæti í alvörunni. Liðið hefur fengið rúmum sjö stigum minna en það hefur átt skilið.

Manchester City og Liverpool ættu að vera ofar en þau eru sem og lið Brentford og Everton.

Arsenal, Aston Villa og Brighton ættu aftur á móti öll að vera neðar alveg eins og Wolves, West Ham og Fulham.

Nýliðar Luton Town ættu ekki að sitja í fallsætinu heldur Bournemouth. Tvö neðstu liðin, Burnley og Sheffield United, eru aftur á móti þar sem þau ættu að vera.

Það má sjá alla töfluna hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×