Fundur bæjarstjórnar hófst klukkan 16:30 en fyrst var haldin fundur fyrir luktum dyrum með stjórn Brimbrettafélags Íslands. Um leið og fundurinn hófst formlega klukkan 16.30 var forseta bæjarstjórnar afhentur undirskriftalisti með 11.320 nöfnum þar sem því er mótmælt að aldan við Hafnarnesvita verði eyðilögð með landfyllingu vegna stækkunar hafnarinnar.

„Ég vona innilega að það verði hlustað á okkur. Árið er 2023, þetta er lýðræði, við þurfum að tala saman, við þurfum að taka ákvarðanir, sem byggjast á staðreyndum og staðreyndin er að þessi landfylling er ekki besta lausnin fyrir bæjarfélagið og fyrir brimbrettafélagið,” segir Davíð Ingi Bustion, sem situr í stjórn Brimbrettafélags Íslands.

Bæjarfulltrúi í minnihlutanum er líka mjög ósáttur við stöðu málsins og hvernig meirihlutinn virðist ætla að hunsa óskir þeirra, sem stunda brimbretti á Íslandi við Þorlákshöfn, en um er að ræða 550 manna hóp, sem fer ört stækkandi.
„Mér finnst þetta bara algjört klúður, ég verð bara að vera algjörlega hreinskilin með það,” segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir bæjarfulltrúi í minnihlutanum í Ölfusi.
Hvar er hamingjan í Þorlákshöfn núna?
„Hún er mjög víða en kannski ekki akkúrat inn í bæjarstjórninni í dag,” segir Ása Berglind.

En hvað segir bæjarstjóri Ölfuss, er allt í fári í sveitarfélaginu vegna einnar öldu?
„Þetta er bara eitt af þeim mörgum málum þar, sem ólík sjónarmið togast á og mikilvægt að kjörnir fulltrúar fái frið til að fara með málið af bestu vitund,” segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri.
En þú sjálfur, hefur þú farið á brimbretti?
„Nei, aldrei nokkurn tímann.”
Heldur þú að þú eigir eftir að gera það?
„Það kæmi mér á óvart að maður á háum aldrei eins og ég er og með öll þessi gráu hár færi að taka upp á því.”

Og skilaboðin voru skýr frá þeim sem vilja vernda brimbrettasvæðið við Hafnarnes í Þorlákshöfn.
„Björgum öldunni.”
