Bayern Munchen er án efa stærsta liðið í þýska boltanum og áttu flestir von á auðveldum sigri liðsins gegn Saarbrucken sem leikur í þriðju efstu deild í Þýskalandi.
Bayern stillti upp sterku liði og það var hinn margreyndi landsliðsmaður Thomas Muller sem kom Bayern yfir á 16. mínútu og allt samkvæmt áætlun hjá Bæjurum.
Það átti hins vegar heldur betur eftir að breytast. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks jafnaði Patrik Sontheimer metin fyrir Saarbrucken og staðan jöfn í hálfleik.
BAYERN MUNICH ARE KNOCKED OUT OF THE DFB POKAL BY THIRD DIVISION SAARBRÜCKEN pic.twitter.com/a7rc2bTNfp
— ESPN FC (@ESPNFC) November 1, 2023
Jamal Musiala, Serge Gnabry og Kingsley Coman komu allir inn á eftir klukkutíma leik en liði Bayern tókst þó ekki að skora. Það gerðu hins vegar heimamenn. Þegar tæpar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Marcel Gaus sigurmark Saarbrucken og tryggði liðinu ótrúlegan sigur.
Allt ætlaði um koll að keyra enda liðið í 15. sæti þriðju efstu deildar í Þýskalandi. Magnað afrek.
Borussia Dortmund tryggði sér sæti í næstu umferð með 1-0 sigri á Hoffenheim. Marco Reus skoraði sigurmarkið. Topplið Bayern Leverkusen fór örugglega áfram eftir 5-2 útisigur á Sandhausen.
Úrslit kvöldsins í þýska bikarnum:
Dortmund - Hoffenheim 1-0
Freiburg - Paderborn 1-3
Holstein Kiel - Magdeburg 3-3 (6-7 eftir vítakeppni)
Sandhausen - Leverkusen 2-5
Hertha Berlin - Mainz 3-0
Saarbrucken - Bayern Munchen 2-1
Viktoria Köln - Frankfurt 0-2