Enski boltinn

Skytturnar töpuðu Lundúna­slagnum og eru úr leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn West Ham fagna marki Mohammed Kudus í kvöld.
Leikmenn West Ham fagna marki Mohammed Kudus í kvöld. Vísir/Getty

West Ham vann í kvöld góðan 3-1 sigur á nágrönnum sínum í Arsenal þegar liðin mættust í enska deildabikarnum í knattspyrnu.

Arsenal hefur verið að spila vel í ensku úrvalsdeildinni í upphafi tímabils og er sem stendur í öðru sæti deildarinnar og aðeins einu stigi á eftir Tottenham.

West Ham er hins vegar um miðja deild og hefur sýnt misjafnar frammistöður. Í kvöld var frammistaðan hins vegar góð. West Ham komst í 1-0 í fyrri hálfleik eftir sjálfsmark Ben White og í síðari hálfleiknum skoruðu þeir Mohamed Kudus og Jarred Bowen tvö mörk á fyrsta stundarfjórðungnum og staðan orðin 3-0.

Fyrirliði Skyttanna Martin Ödegaard skoraði sárabótamark úr víti í uppbótartíma en sigur West Ham var öruggur og þeir fara því áfram í næstu umferð enska deildabikarsins.

Þrátt fyrir að hafa gert breytingar á liði sínu fyrir leikinn stillti Mikel Arteta upp sterku liði með Jorginho, Kai Havertz, Eddie Nketiah og Leandro Trossard alla í byrjunarliðinu ásamt ensku landsliðsmönnunum Aaron Ramsdale og Ben White.

Declan Rice byrjaði á bekknum gegn sínum gömlu félögum. Hann kom inná í stöðunni 2-0 en gat lítið gert til að koma í veg fyrir tap sinna manna.

David Moyes knattspyrnustjóri West Ham fer því án efa sáttur á koddann og kannski sérstaklega í því ljósi að Mohammed Kudus skoraði sitt annað mark fyrir félagið en hann var keyptur dýrum dómum frá Ajax í lok sumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×